Heimsóknin fól í sér fjögurra daga hermiþjálfun, þar sem þær Sólveig Gylfadóttir og Ingibjörg Linda Sveinbjörnsdóttir frá smitsjúkdómadeild A7, ásamt Ingunni Steingrímsdóttur og Stefaníu Arnardóttur frá sýkingavarnadeild, fylgdust með skipulagi og framkvæmd viðbragða við slíkum aðstæðum.
Tilgangur ferðarinnar var að afla þekkingar og reynslu sem nýtist við endurskoðun og þróun verklags á Landspítala. Núverandi verklag, sem m.a. byggir á viðbrögðum vegna ebólu árið 2014, er orðið úrelt og kallar á uppfærslu í samræmi við nýjustu þekkingu, reynslu og alþjóðleg viðmið. Jafnframt er brýnt að þróa markvissa fræðslu og þjálfun fyrir starfsfólk, þannig að Landspítali geti með skjótum og öruggum hætti brugðist við ef til kemur upp tilfelli þar sem sjúklingur er grunaður um eða er með staðfestan hááhættusmitsjúkdóm (HCID).
Hjúkrunarfræðingarnir sem fóru til Noregs skráðu niður ferðasöguna á Instagram síðu Landspítala.
Heimsóknin veitti mikilvæga innsýn í raunverulegar áskoranir sem starfsfólk mætir við umönnun sjúklings í svokallaðri HLIU-einingu (High-Level Isolation Unit). Slíkar einingar eru sérstaklega hannaðar til meðferðar sjúklinga með mjög smitandi og lífshættulega sjúkdóma, svo sem ebólu, Marburg-veiru og lassa-hita. Þar eru strangar öryggiskröfur, sérhæfður búnaður og aðgengi takmarkað til að tryggja sýkingavarnir.
Í hermiþjálfuninni kom bersýnilega í ljós hve flókin samskipti geta verið í þessum aðstæðum. Hlífðarbúnaður dregur bæði úr heyrn og sjón, sérstaklega jaðarsýn, og hljóð frá lofthreinsibúnaði gerir samtöl erfið. Snertiskyn minnkar í tvöföldum hönskum, sem hefur áhrif á klínískt mat – m.a. við þreifingu á púls og að finna æðaaðgengi.
Heimsóknin undirstrikaði mikilvægi þess að byggja upp vel skilgreint, þjálfað og æft verklag á Landspítala og efla markvissa fræðslu til starfsfólks svo hægt sé að tryggja öruggt og skilvirkt viðbragð við alvarlegum smitógnum í framtíðinni.
Í meðfylgjandi myndbandi er rætt við Stefaníu Arnardóttur, hjúkrunarfræðing á sýkingavarnadeild og Sólveigu Gylfadóttur, sérnámshjúkrunarfræðing á smitsjúkdómadeild.